Páskadagur 2008

_DSC2579

Páskadagur 23. mars 2008

Texti þessa sunnudags: Markúsarguðspjall 16. 1-7

Kæri söfnuður
gleðilega páska

I
„Ef Jesús væri enn á meðal okkar, hvaða sjónvarpsefni myndi hann horfa á?“
Þessi spurning var í einu dagblaðanna nú rétt fyrir páska.
Ef Jesús væri enn á meðal okkar. Páskahátíðin snýst um það að Jesús er enn á meðal okkar. Hann sigraði dauðann og djöful, þess vegna gat dauðinn ekki haldið honum.
Hann gaf líf sitt saklaust að fórnargjöf svo að við mættum þiggja líf af hans lífi og lifa um eilífð.

Jesús er upprisinn, hann lifir, hann lifir enn í dag. Hann er með okkur til að leysa fjötra rangsleitninnar innra með okkur. Hann vill snerta við okkur og veita okkur frelsi hið innra, frelsi frá því sem vill njörva okkur niður í vondum siðum. Hann gefur okkur frelsi til góðra verka. Þegar upprisumáttur hans fær að höndla líf okkar, kallar hann fram í okkur það besta sem með okkur býr. Það er elska Krists til mannkyns sem streymir til okkar og hún á að verða í okkur sem lind er streymir fram til náungans.

Hann reis frá dauðum. Hann er áfram hér,
sú helga vissa er páskagleðin sanna.
Hann gaf sitt líf, að lifa mættum vér,
og lífsins Drottinn vitjar allra manna.
Sb. 150 Magnús Guðmundsson

Undanfarna daga hef ég hugsað um síðustu orð Krists á krossinum. Hann tók sjö sinnum til máls. Hann var kvalinn og þjáður eftir 38 svipuhögg, þyrnikórónu sem þrengdi sér inn í höfuð hans og sár naglanna sem festu hann á krossinn.

Þrátt fyrir það beindi hann ekki sjónum að  eigin þjáningu. Hann andvarpaði til Guðs og sagði:

1. Faðir, fyrirgef  þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra. Lk. 23.34

Hann var að hugsa um mannkynið sem sveik hann. Hann var að biðja mér og þér griða. Ég kemst við að hugsa um elsku hans til hvers mannsbarns.

Þegar ræninginn á krossinum bað Jesú fyrir sig var svarið:

2. Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís. Lk.23.43

Umvefjandi fyrirgefning Krists tók ræningjann að sér. Við getum líka hvert og eitt speglað okkur í ræningjanum því frammi fyrir lögmáli Guðs erum við öll sek. Enginn hefur lifað lögmálið til fulls nema Jesús. Að uppfylla skyldur lögmálsins var aðgangurinn að samfélagi við Guð. En Jesús breytti því öllu með dauða sínum og upprisu. Því getum við óhrædd leitað á náðir Jesú eins og ræninginn. Hann er til staðar fyrir okkur og veitir fyrirgefningu ef við iðrumst af hjarta.

Þriðja hugsun Jesú á krossinum var annars konar.
Hann hrópaði á arameísku:

3. Elóí, Elóí, lama sabaktaní!
Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? Mk.15.34

Verkefni Jesú í hjálpræðissögunni var að taka sekt okkar yfir á sínar herðar. Hann var ábyrgðarmaður okkar frammi fyrir Guði. Þegar misgjörð alls mannkynsins hvíldi á honum varð afleiðingin aðskilnaður frá Guði. Samt var Guð þar, en Jesús upplifði aðeins synd og sekt mannsins sem byrgir honum sýn til Guðs. Að finna ekki Guð í grennd við sig vakti honum sára angist, því hrópaði hann: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? Þarna samsamaði Jesús sig hverjum þeim sem í náttmyrkri hugans finnur sig einan og yfirgefinn.

Að þessari glímu lokinni hélt Jesús áfram að biðja til Guðs. Hann var ekki lengur angistarfullur, hann bað í trausti til þess föður sem hann þekkti og sagði:

4. Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn. Lk.23. 46

Hann var tilbúinn að mæta örlögum sínum, hann horfðist í augu við dauðann og mætti honum í trausti til Guðs, að hann mundi vel fyrir sjá.

En Jesús sá að það þyrfti að sjá fyrir fleiru. Hann horfði á móður sína sem grét undir krossinum. Hjá henni stóð Jóhannes lærisveinn. Móðir hans var ekkja, þær þurftu að reiða sig um afkomu á börn og frændfólk. Móðir Jesú var honum afar kær. Á dauðastundinni bar hann hag hennar fyrir brjósti og sagði:

  1. Kona, nú er hann sonur þinn. Nú er hún móðir þín. Jh.19.26,27

Hann sá til þess að hún yrði ekki umkomulaus. Jesús kom Maríu í öruggt skjól.

Að því loknu sagði hann:

  1. Mig þyrstir Jh.19.28

Fólkið sem var í kring hélt að hann væri að kalla eftir vökva. Það var til siðs að gefa þeim þjáðu á krossi edik, en það er deyfandi vökvi. En Jesús var ekki að hugsa um vökvann. Hann þyrsti eftir réttlæti, hann þyrsti eftir því að fullna sektargreiðsluna fyrir mig og þig. Hann þyrsti eftir möguleikanum að sigra dauðann og illskuna. Hann þyrsti eftir sáluhjálp þinni. Eða eins og Hallgrímur Pétursson segir svo vel:

Í annan stað
merk, maður, það,
og minnst þess hverju sinni,
að herrann Krist
hefur mest þyrst
af ást og lyst
eftir sáluhjálp þinni.
Úr  42.10 passíusálmi

Þá sagði Jesús:

  1. Það er fullkomnað. Jh.19.30

Hann hneigði höfuðið og gaf upp andann.

Þar kom loksins á þeirri tíð,
þreytti Jesús við dauðann stríð.
Andlát mitt bæði og banasótt
Blessaðir mér þá sömu nótt.
Dauðinn tapaði, en drottinn vann.
Dýrlegan sigur gaf mér þann.
Úr 3ja passíusálmi

Þess vegna gleðjumst við og fögnum í dag. Dauðinn dó en lífið lifir. Jesús er sigurhetjan, við erum þiggjendur af lífi hans, fyrirgefningu og frelsi. Við eigum eilíft líf fyrir trú á hann. Von kristinnar trúar er eilíft líf og endurfundir ástvina í eilífðinni.
Fyrir páskadaginn stóðum við skuggamegin við krossinn. Við sáum hvernig Jesús gekk inn í þjáningu þessa heims með píslargöngu sinni. Þar er sársauki og grátur.
Í dag stöndum við upprisumegin við krossinn. Við sjáum sigur lífs yfir dauða, yfirburði gæsku yfir illsku, ljóss yfir myrkri.
Við fögnum Kristi því hann vann sigur á dauða og illsku og rauf alla hindrun á milli okkar og Guðs.
Það er spenna á milli þjáningarinnar og sigursins. Það er eins og þegar kona er í fæðingu. Þjáningin skekur hana, en hún er fyrirheit um að nýtt líf sé í vændum. Þegar fæðingin er afstaðin minnist hún ekki frekar þrautanna því barn er í heiminn borið. Þá ríkir fögnuðurinn einn.
Fögnuður lífsins er nú okkar kristinna manna.

Dr. Sigurbjörn Einarsson orðar svo vel fæðingarhríðir heimsins til guðsríkis. Hann segir:

„Golgatamyrkrið, grafarmyrkrið, er móðurskaut þess lífs, sem brýst fram á páskum og mun um síðir uppljóma endurleystan, endurfæddan umskapaðan, fullkominn heim.“

Sigurbjörn Einarsson, Sárið og perlan bls. 66

Við lifum í þessari gerjun þar sem Guð er stöðugt að vinna að umsköpun hjartna okkar og umsköpun alls heimsins. Heyrum hvernig Magnús Guðmundsson orðar það í páskasálminum:

Þú, Jesús Kristur, Drottinn dýrðarranns,
sem dauðans viðjar hefur látið falla,
rís upp í hug og hjarta syndugs manns,
þín heilög návist fylli veröld alla.
Sb. 150 Magnús Guðmundsson

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.