Hrútasýning var það heillin

Eftir hádegi lagði ég af stað í nokkurra daga ferð um Snæfellsnesið. Búin að fá frí úr vinnu til að dvelja með sveitungunum. Fyrsti áfangastaður var í sveitina mína Lækjarbug við Hítará. Þar var hrútasýning þegar mig bar að og myndaði ég herlegheitin. Því miður er netsambandið það hægt hér að ég gat ekki sett inn myndir. Vonandi get ég skilað þeim inn síðar. Það voru mikil tilþrif þegar bændurnir þukkluðu hrútana á meðan eigendurnir héldu sínum skepnum. Loks var kveðinn upp dómur um bestu hrútana til undaneldis af kollóttum, mislitum og hvítum hyrndum. Bestur allra hrúta kom frá þeim hjónum á Mel, Sigurjóni og Þóreyju Björk. Hann var þéttur í sér og fallegur en stuttfættur. Það var gott að fá heita kjötsúpu á eftir og sætabrauð með kaffi áður en verðlaunaafhendingin fór fram.
Svona hrútasýning er nýmæli fyrir mig. Það var góð upplifun að vera þannig með fjölskyldunum á Mýrunum, sjá ungviðið leika sér og þá eldri í leik í kringum hrútana.

Nú býður mín ilmandi pizza hjá Lillu Húsfreyju og það er óhætt að segja að þar fari HÚSFREYJA með stórum stöfum því aldrei er skortur á bakkelsi þar.

Færðu inn athugasemd