Bjúgnaveisla hjá Kela Vert

Keli_Vert_og_Co2013

Hvítfryssandi sjórinn æðir að landi. Aldan skellur við strönd og fryssast út í loftið. Fegurð, fegurð en það er hvasst. Já, við hjón höfum uppgötvað að það er hvasst á Snæfellsnesi alveg eins og í Eyjum. Á sama hátt ríkir fegurðin ein á báðum stöðum. Þessi fallega náttúra þar sem Guð verður skynjaður nær en víðast hvar.

Við snæddum í bjúgnaveislu í gærkvöldi á Langaholti ásamt sveitungum og borgarbúum. Það var ekki þverfótað fyrir okkur umsækjendum um Staðastað. Þetta er nú farið að verða hálf fyndið hvernig við umsækjendur kútveltumst á milli bæja sveitungum til gleði og armæðu. Bjúgun voru hins vegar merkilega góð. Sum voru grilluð, önnur eitthvað marineruð, líka heimagerð og svo var rónahryggur. Uppskrift hans er einföld: Skerið bjúgu langsum eftir miðju, setjið barbeque sósu í sárið og inn í ofn þar til það er orðið vel heitt. Keli Vert sá að með þessum þunga mat þyrfti eitthvað léttara eins og salat, byggrétt og annað léttmeti. Svo hétu réttirnir skrýtnum og skemmtilegum nöfnum til að krydda þetta. Á eftir borðhaldi var slegið upp skemmtun. Guðni Már Henningsson stýrði útvarpsþætti með Kela Verti.  Eyþór og Þorri spiluðu og sungu og var þetta hin ágætasta skemmtun.

Við gistum á Langaholti og fimmtugs afmælið mitt rann upp. Ég svipti gardínum frá frábæru útsýni og við mér blasti hafið svo tignarlegt í ágangi sínum á land. Ég veit að þetta verður góður dagur, en það er hálf óraunverulegt að ég sé búin að lifa hálfa öld. Það er ótrúlega gott að eldast, miklu betra en ég átti von á. Það er þessi viska sem lífsbaráttan færir sem er svo góð. Mig langar að finna leiðir til að nýta hana sem mest mannlífinu til góðs.

Færðu inn athugasemd