Göngumessa á Ásfjalli

_DSC6384

27. júní 2010,  4. sd. e. þrenningarhátíð
Texti þessa sunnudags: Fjallræðan, Matteusarguðspjall 5. 5-7; 5. 43-48; 6. 19-21; 7. 1-5.

Samkynhneigðir og ný hjúskaparlög

Maðurinn er aldrei einn. Hann er alltaf í tengslum og samhengi við aðra. Í seinni sköpunarsögunni sagði Guð eftir sköpun mannsins: „Eigi er gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.“ 1. Mós.2.18 Hann skapaði dýrin hvert af öðru en ekkert þeirra fullnægði þörf mannsis alveg. Þá skapaði Guð aðra manneskju, konu honum við hlið. Þau náðu saman og hvöttu hvort annað til sigurs og syndar.

Þannig hefur lífið verið alla tíð. Veran í aldingarðinum Eden á að vera tilvísun í hið fullkomna líf þar sem maðurinn var í réttu samhengi við sjálfan sig og Guð. Hann lifði í elsku til annarrar manneskju og elsku til Guðs. Hann bar ábyrgð á jörðinni og allt lék í lyndi þar til hann sveik lífslögmálið, hann fór á svig við einu regluna sem Guð setti. Karlinn og konan stóðu þétt saman í því að bregðast. Launin sem þau uppskáru var að víkja úr aldingarðinum og þar með að víkja úr réttu samhengi við sig sjálf og við Guð sinn.

Þetta kallar guðfræðin fall mannsins. Þarna fór eitthvað úrskeiðis og sköpunarsagan er með viðleitni til að útskýra þá brotalöm sem er í hverju samfélagi, í hverjum manni, karli og konu. Tilhneiginguna til að gera það sem ekki er gott. Þegar við lesum fjallræðu Jesú sjáum við að hann er aftur og aftur að tala um tengsl manna og samskipti. Það er af því þau eru svo mikilvæg. Hann gagnrýnir harðlega slæma hegðun og gerir mikla kröfu á viðhorf okkar og breytni hvers til annars. Hann setur kröfuna í efsta stig og segir: „48Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“ Matt.5.48

Það nær enginn því marki að verða fullkominn en það er gott að hafa háleitt markmið að stefna að. Viðmið fjallræðunnar hjálpa okkur til að verða betri manneskjur. En þar er ýmsu snúið á hvolf miðað við hefðbundin sjónarmið. Jesús kallar hógværa hamingjusama af því að þeir munu jörðina erfa. Í íslenskum viðmiðum hafa þessir hógværu venjulega ýst aftast og fengið molana sem eftir verða. Að baki falli efnahagslífsins sjáum við þó að gráðugu úlfarnir sem allt vildu fá fljótt og án mikils tilkosnaðar eru ekki að hreppa hnossið. Græðgin varð þeim að falli.

Skoðum hógværðina og uppskeru hennar í víðara samhengi. Hógværð á að erfa jörðina. Ef við nytjum jörðina og gæði hennar í skynsamlegri hófsemd þá erum við að hlúa að lífkeðjunni og lengja líf á jörðinni.
Hvað erum við að gera? Það er talað um umhverfismál og varað við hlýnun jarðar og skaðlegum afleiðingum hennar. Það er varað við mengun en hvað gerum við?
Maðurinn heldur áfram í græðgi sinni að ganga of hart að gæðum jarðar. Við erum ekki tilbúin að slá af kröfum okkar til lífsgæða. Okkur reynist erfitt að temja okkur hógværð gagnvart náttúrunni og afkomendur okkar munu gjalda fyrir gjörðir okkar í umhverfismálum.
Við verðum að taka okkur á. Þá þurfum við kannski að fórna einhverju.

Lög um ein hjúskaparlög taka gildi í dag. Það er áfangi í baráttu samkynhneigðra um viðurkenningu og réttindi á við aðra. Það sjónarmið að Þjóðkirkjan sé á móti samkyn­hneigðum hefur auðveldlega ratað í fjölmiðla síðustu ár. Það hefur hins vegar gengið verr að koma því á framfæri í fjölmiðlum að biskup bjó til blessunar­form fyrir hjúskap samkynhneigðra strax árið 1996 þegar lög um staðfesta samvist tóku gildi. Þjóðkirkjan opnaði þannig samkynhneigðum leið til bænar og blessunar kirkjunnar en það er það sem hún veitir umfram löggjörninginn hjá sýslumanni.

Síðustu ár hefur mikil umræða um málefni samkynhneigðra farið fram á meðal presta og guðfræðinga. Þessi hópur er eins og þversniðið af þjóðinni. Umræðan hefur verið viðkvæm og erfið og fólk hefur tekist á við miklar tilfinningar. Það er ósköp eðlilegt að í breiðri og víðsýnni kirkju séu skiptar skoðanir. Þau litlu brot umræðunnar sem farið hafa í fjölmiðlana eru oftar en ekki skrumskæld og draga ekki upp sannverðuga mynd af umræðunni.

Eitt sjónarhorn  þeirra sem vilja ekki ein hjúskaparlög byggist á samstöðu við kristnar kirkjur víða um heim sem ekki myndu samþykkja hjónaband samkynhneigðra. Annað sjónarhorn af sama meiði byggist á samstöðunni við aðrar kristnar kirkjur hér á landi sem ekki vilja samþykkja ein hjúskaparlög. Hér er samstaðan með systurkirkjunum tekin fram yfir samstöðu með samkynhneigðum.

Biskupinn sagði í Fréttablaðinu í gær að hann væri ekki viss um hvað væri rétt eða rangt í þessu sambandi og þess vegna vildi hann halda við hefðina sem verið hefði í gegnum aldirnar. Sum segja að í Biblíunni standi að samkynhneigð sé röng.

Þau sem taka skýran málstað með samkynhneigðum gera það út frá mismunandi sjónarhornum en ég hygg að hjá flestum þeirra liggi að baki hugsunin um að Guð elskar alla menn og fer ekki í manngreiningarálit. Þar með er ég ekki að segja að þau sem ekki eru tilbúin að standa þétt með samkynhneigðum segi að Guð elski ekki samkynhneigða. Þetta er spurning um hvaða þættir móta skoðun okkar helst.

Fordómar í garð samkynhneigðra hafa ríkt í langan tíma. Þegar ég fór að glíma við spurninguna um samkynhneigð af heiðarleika komst ég að raun um mína eigin fordóma. Það var erfitt að horfast í augu við það. En eins og við vitum er maðurinn hræddur við það sem hann þekkir ekki. Hann gefur því mönnum og málefnum oft fyrirfram stimpil. Það eru fordómar. Þeir eru ekki sanngjarnir, því þeir kveða upp dóm áður en málið hefur verið skoðað út frá öllum hliðum.

Fordómarnir búa innra með okkur öllum eins og breiskleikinn í okkur að ná ekki upp til fullkomleikans. En fordómar eru girðingar sem einangra okkur af hvert frá öðru. Fordómar stýja fólki í sundur. Sagt hefur verið að mestu fordóma gagnvart samkynhneigðum hafi þeir sem enn hafa ekki komið út úr skápnum. Reynum að setja okkur í spor þess sem finnur að hann passar ekki inn í munstrið. Hann reynir að laðast að konum eins og fjöldinn en hugur hans stendur til karlmanna. Hann reynir að bæla það en svona er hann bara og hann getur ekki að því gert. Hann finnur fordómana rísa innra með sér, ýtir öllum kenndum til karla niður og fordæmir homma. Hann er í stríði við sjálfan sig, getur ekki náð sátt. Ef þetta ástand varir til lengdar brotnar hann niður. Það er þekkt að það er hærra hlutfall samkynhneigðra sem glímir við vímuefnavanda. Það eru margir ungir hommar sem enda líf sitt með sjálfsvígi. Allt ber þetta vott um mikla vanlíðan og innri togstreitu og fólk reynir að kæfa eða leysa vanlíðanina t.d. með vímugjöfum.  En það gefur ekki lausn inn í líf þeirra.

Ég get ekki fyllilega sett mig í spor samkynhneigðra en að heyra sögur þeirra um baráttu fyrir tilverurétti sínum, útskúfun, höfnun, sársauka, fyrirlitningu og fordóma hefur hreyft við mér. Fordómar samfélagsins auðvelda samkynhneigðum ekki að takast á við líf sitt. Vegna þessarar mótstöðu taka sumir sér stöðu með þeim í baráttunni.

Við höfum séð mikla aukningu í skrúðgöngu fólks á gay pride dögum síðustu ár. Aðstandendur samkynhneigðra hafa mætt þar til að styðja ástvini sína. Þeir þekkja vanlíðan þeirra og sársauka og vilja berjast með þeim. Samstaða gegn kúgun og fordómum er eflaust útgangspunktur margra sem arka í gay pride gönguna.

Þeir sem nota biblíurökin gegn samkynhneigðum benda á texta í fyrsta kafla Rómverjabréfs Páls postula. Þar er Páll með inngang að skilaboðum sínum til Rómverja. Þegar við lesum mjög forna texta þá er mjög mikilvægt til að skilningur verði sem réttastur, að átta sig á aðstæðum þess tíma sem Páll skrifar inn í. Ef við lesum þetta út frá okkar menningarsamfélagi þá fáum við eitthvað allt annað út úr textanum en honum var upphaflega ætlað að segja. Páll vildi ná til áheyrenda sinna með boðskap kristninnar um að hinn réttláti mun lifa fyrir trú. Hann dregur upp mynd í innganginum af einum Guði og að verk hans megi sjá í sköpunarverkinu. Síðan byrjar hann að gagnrýna Rómverja fyrir að þeir skuli ekki virða Guð almáttugan. Hann heldur áfram og ræðst að sérstöku vandamáli sem orðið var í höfuðborg keisaradæmisins. Hann segir það afleiðingu þess að þeir hafi ekki virt Guð en rótast áfram í eigin hyggjuviti. Þess vegna segir Páll:
24Þess vegna hefur Guð látið fýsnir þeirra til saurlífis ná valdi yfir þeim svo að þeir svívirtu líkami sína hver með öðrum. 25Þeir völdu lygina í staðinn fyrir sannleika Guðs, hafa göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans, hans sem er blessaður að eilífu.26Því hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg 27og eins hafa karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn hafa framið skömm með karlmönnum og tóku svo út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.“  Róm.1.24-27
Í sömu andrá gagnrýnir Páll alla sem eru fullir alls kyns rangsleitni, vonsku, ágirndar og illsku. Hann segir: „Þeir eru öfundsjúkir, morðfúsir,“ Róm.1. 29-31

Allt þetta liggur undir en Páll tekur sérstaklega fyrir karla sem brunnu í losta hver til annars og konur sem breyttu eðlilegum mökum í óeðlileg. Ekki hef ég beina skýringu á hvað Páll meinti með konurnar en hann var að ráðast gegn þekktum vanda í Róm hvað varðar karlana. Þar réði hellenísk hefð ríkjum. Heimspeki var í hávegum höfð, allt gott um það en áhrif hennar hafði hliðar vanda. Samkvæmt þeirra lífssýn var tvíhyggja í öllu, gott og vont, andi og efni o.s.frv. Heimspekingarnir vildu efla andann og hafa stjórn á efninu, þ.e. þeirra eigin líkama. Samkvæmt þeirra heimssýn voru konur aðeins efnislegar verur, þær höfðu ekki vitsmuni karla og höfðuðu fyrst og fremst til líkamlegra nautna. Þær voru óæðri verur körlum. Sjálfstjórnarheimspekin var í mikilli tísku efri stéttanna. Af þessari lífssýn spratt sú hugsun að það væri betra fyrir karlmann að vera með karlmanni en konu því karlar voru jú vitsmunaverur og æðri konum. Það var algengt að eldri heimspekingar tækju til sín lærlinga og gerðu þessa ungu menn að ástmönnum sínum á meðan þeir kenndu þeim fræðin. Hér er ekki um jafnræði tveggja einstaklinga að ræða, við myndum frekar segja að hér væri kynferðisleg misnotkun í gangi í krafti valds sem fólst í þekkingunni.

Þegar við tvöþúsund árum síðar ætlum að heimfæra þennan sérstaka vanda í Róm upp á samkynhneigð þá sjáum við að það á ekki við. Ef Páll sendi okkur bréf í dag myndi hann tæpa á ýmsu, skorti á heilindum, sérhlífni, eigingirni, spillingu, siðferðilegri tækifærismennsku o.fl. Það væri fróðlegt að sjá hvað hann myndi draga upp sem stærsta vandann í okkar samfélagi. Þegar við horfum á viðbrögð Páls til að vekja upp samvisku fólks í Róm skulum við líka muna að hann setti í sama flokk með körlum sem brunnu í girnd hver til annars, deilugjarna, sviksama, illgjarna, illmáluga, guðshatara, hrokafulla, óhlýðnir foreldrum sínum, 31óvitra, ótrúa, kærleikslausa og miskunnarlausa. Höfum við einhverntíman verið í þeim hópi?

Jesús sagði í fjallræðunni sem var einskonar stjórnarskrá hans: „1Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. 2Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.“ Matt.7.1,2
Þegar ég fór að hugleiða þessi orð Jesú sá ég að ég hef oft dæmt fólk út frá fordómum. Ég hef gefið mér eitthvað um fólk sem stenst svo ekki. Ég hef dæmt það án þess að skilja það. Án þess að upplifa sársauka þeirra og hvata að gjörðum sínum. Ég hef marg oft fallið á prófinu. En þessi dásamlegu orð sem benda mér á að dæma aðra eins og ég vil að ég sé dæmt kalla fram miskunnsemi. Smám saman hefur mér skilist að ég hef ekki leyfi til að dæma aðra af því ég veit ekki hvað að baki býr. Ég hef bara brot af myndinni sem þau hafa.

Hugsum um það þegar við metum aðrar manneskjur. Dæmum með miskunnsemi svo að okkur verði miskunnað í dómi Guðs. Biðjum hann að fyrirgefa okkar fyrri fordóma og biðjum hann að hjálpa okkur að horfa á hvert annað útfrá elskunni sem Guð hefur til okkar hvers og eins. Guð elskar samkynhneigða á sama hátt og hvern annan. Guð vill umvefja samkynhneigða og fjölskyldur þeirra græðandi elsku sinni sem byggir upp og brýtur niður múra.

Ef að ein hjúskaparlög hjálpa samkynhneigðum og fjölskyldum þeirra að nálgast Guð og kirkjuna þá er góðum sigri náð. Ef að múrar hrynja og jákvæð tengsl myndast við Guð og menn þá er það í anda fagnaðarerindisins sem vill mæta hverri brotinni og breyskri manneskju og reisa hana við með fyrirgefningu og blessandi anda Guðs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.