Kynning vegna umsóknar minnar
um 
embætti sóknarprests á Staðastað 

bara_a_strondum

Ég hef brennandi áhuga á starfi sóknarprestsins í prestakallinu og langar að njóta samveru með sóknarbörnunum í öllum sex sóknunum á tímum gleði og sorgar í lífi þeirra. Blessandi áhrif kristindómsins hafa gert líf mitt betra. Þeim áhrifum langar mig að miðla og vera í nærveru sóknarbarna í gleði og sorg.
Snæfellsnesið er mér kært þar sem móðir mín ólst upp undir jökli að Gröf í Breiðuvík. Auk þess var ég í sveit á Lækjarbug á Mýrum í fjögur sumur og á ég þaðan margar af kærustu minningum bernskunnar. Líklega lærði ég þar að elska náttúruna. Enn fremur á eiginmaður minn Guðmundur Steinþór Ásmundsson ættir að rekja til Hrútsholts. Allt hefur þetta tengt mig böndum við landsvæði prestakallsins.
Nú er verið að tengja starf héraðsprests við embættið. Það vekur áhuga minn að þróa það prófastsdæminu til heilla. Í tvö ár starfaði ég sem héraðsprestur í höfuðborginni og lærði þar til verka.
Frá vígslu minni 1998 hef ég starfað í margskonar söfnuðum, með mismunandi þarfir og hef því fjölbreytta reynslu af kirkjuþjónustu. Þetta hefur krafist skipulags, samvinnu, sveigjanleika og aðlögunarhæfni. Það er mér ekki létt að tefla fram eiginleikum mínum en geri það fyrir sóknarbörn til að varpa ljósi á mig.
Eiginleikar sem nýtast mér í starfi eru t.d. þolinmæði, heiðarleiki, mikill áhugi á fólki og ég hef samkennd með þeim sem minna mega sín. Ég legg upp úr því að hlusta á fólk.
Margvíslegar messur  hef ég haldið, fábrotnar, fámennar og innilegar og allt upp í stórar háklassískar messur með mörgum prestum og leikmönnum. Af sr. Jóni Dalbú lærði ég mikið um messuþjónaskipulag sem virkjar fleiri í kirkjustarfi.
Undanfarin tvö ár hef ég lært samnorrænt öldrunarnám til meistaraprófs. Þar er unnið að velferð aldraðra og nýtist námið vel í allri prestsþjónustu.
Einn vetur leysti ég af sem félagsmálastjóri og kom þar að málefnum samfélagsins út frá hlutverki stjórnsýsluvaldsins. Sú reynsla hefur aukið víðsýni mína sem prestur.

Virðingarfyllst,
Bára Friðriksdóttir, prestur.