Húsvitjanir hægri – vinstri

arnarstapi_gratt_topp_okt2013

Það hefur snjóað í fjöllin í nótt. Kólgubakkar liggja úti fyrir Breiðuvíkinni, vindurinn gnauðar og það tekur í bústaðinn einstaka sinnum. Dagur á Arnarstapa að hausti. Fyrsta verk dagsins er undirbúningur undir kynningarfundinn annað kvöld. Síðan hringingar í sóknarbörn sem ég hyggst heimsækja. Þá er lagt af stað, en fyrst horfi ég yfir fegurð fjallanna í Breiðuvík. Það er eins og hvítbryddaðar hettur hafi verið breiddar á brúnir fjallstoppa. Það er ekki amalegt að keyra um í slíkri náttúru. Stoppað við á bæ í Breiðuvík, þar gat ég tengt bóndann við móður mína. Það vakti gleði og spurningar um hennar hagi og jók áhuga minn á bónda. Síðan lá leiðin til Ólafsvíkur í matarinnkaup. Um leið var gerð húsvitjun hjá sóknarprestinum og síðan frænda mínum sem kominn er á dvalarheimilið. Aðstæður þar eru allar hinar ákjósanlegustu sem veitti mér létti. Eggert frændi hafði yngst í útliti frá því ég sá hann síðast, það vissi á gott atlæti. Fróðárheiðin var að mestu auð en þó upplifði ég fyrstu hálkubletti vetrarins. Þegar yfir heiðina kom fór ég í fleiri húsvitjanir og átti skemmtilegt spjall við konur og karl. Ein húsfreyjan aumkaði sig yfir mig og gaf mér spæld egg úr hamingjusömum hænum sínum. Það er ekki laust við að þau hafi aukið mér hamingju. En það var ekki fallegt af mér að banka upp á svona rétt fyrir kvöldmat. Það er bara engin leið að hitta sem flesta ef horfa á í slíkt. Það er heldur engin þörf að gefa mér snæðing þó ég líti inn. Sigrún mín, hafðu heila þökk fyrir.

Þegar í bústaðinn var komið átti ég góð samtöl við manninn minn og móður. Það er alltaf svo gott að heyra í þeim sem maður elskar! Einnig heyrði ég í einum umsækjandanum vegna skipulagningar á bænastundum sem verið er að undirbúa í nokkrum kirkjum kallsins næsta sunnudag. Arnaldur Máni hefur leitt það mál og verður það kynnt betur á næstu dögum. Kvöld á Stapa og Kári minnir á sig.

Ein hugrenning um “Húsvitjanir hægri – vinstri

  1. Sæl Bára mín!
    Leiðinlegt að vera ekki á svæðinu þegar þú varst á ferðinni, vonandi gengur þér allt að óskum og Kári hrekki þig ekki of mikið.
    Kærleiks kveðja og góðar óskir frá okkur hjónum.
    Jenný

Færðu inn athugasemd